Viðar hefur starfað við alþjóðlega hugbúnaðargerð síðastliðin 15 ár. Hann var einn af stofnendum Tempo og starfaði þar sem framkvæmdastjóri tækni og vöru og nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Viðar flutti nýverið til Íslands frá Montréal í Kanada. Áður veitti Viðar íslenskri ferðaþjónustu ráðgjöf varðandi vefviðmótsgerð og leiddi þróun á bókunarhugbúnaði Icelandair og var ábyrgur fyrir hugbúnaði tengdum Inspired By Iceland herferð Íslandsstofu.

Viðar er með M.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Oxford Háskóla og B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Meðan á dvöl hans við Oxford háskóla stóð, sótti hann starfsnám hjá Google og stundaði nám í nýsköpunarfræðum við Saïd Business School.  

Kaptio var stofnað árið 2012, og er með höfuðstöðvar í Reykjavík og starfsemi meðal annars í Bretlandi og Kanada og sérhæfir sig á svið bókunar- og viðskiptatengslahugbúnaðar fyrir ferðaþjónustu. Viðskiptavinir félagsins eru alþjóðleg fyrirtæki í ferðaþjónustu.Í tilkynningu segir að síðastliðin ár hafi Kaptio verið í hröðum vexti. 

„Við erum mjög ánægð að fá Viðar til liðs við Kaptio. Reynsla hans í þroska og vexti hugbúnaðarfyrirtækis á alþjóðlegum markaði mun nýtast Kaptio vel við að takast á við næsta vaxtarfasa fyrirtækisins. Hugbúnaður Kaptio hefur vakið mikla athygli og koma Viðars mun styrkja félagið við að hraða vexti og vöruþróun. Það eru því spennandi tímar framundan hjá félaginu þegar ferðaiðnaðurinn á heimsvísu tekst á við þau tækifæri sem eru framundan því hugbúnaður Kaptio gerir viðskiptavinum kleift að ná vaxtarmarkmiðum sínum“ segir Eggert Claessen, stjórnarformaður Kaptio. 

Kaptio hjálpar ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum að halda utan um tilboðsferli og bókanir viðskiptavina sinna og auðveldar jafnframt samskipti við endursöluaðila og birgja. Hugbúnaðarlausnin er hönnuð sem viðbót við Salesforce viðskiptatengslakerfið (CRM) en Salesforce er þekktasta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum.  

„Ég er mjög spenntur að ganga til liðs við Kaptio á þessum áhugaverða tímapunkti. Það eru gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu þegar kemur að upplýsingatækni og Kaptio er í frábærri stöðu til að umbylta iðnaðinum með hugbúnaði sem gerir sölu á ferðaþjónustu mun persónumiðaðri og skilvirkari. Ég hlakka til að nýta reynslu mína við að byggja upp vörudrifið hugbúnaðarfyrirtæki með áherslu á upplifun viðskiptavina“ segir Viðar Svansson, framkvæmdastjóri Kaptio. 

Kaptio var valið Vaxtarsproti ársins 2018 á Íslandi sem var viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Helstu hluthafar Kaptio eru Frumtak og Nýsköpunarsjóður auk stofnenda félagsins, Arnars Laufdal Ólafssonar og Ragnars Fjölnissonar.