Paula leiðir alþjóðlegt tengsla og markaðsstarf Frumtakssjóðanna og eignasafn þeirra.

Paula Gould hefur verið ráðin til þess að leiða alþjóðlegt tengsla og markaðsstarf Frumtakssjóðanna og eignasafn þeirra. Þetta er nýtt starf sem er ætlað auka sýnileika Frumtaks og félaganna í eignasafninu erlendis.

Frumtak Ventures er umsýsluaðili Frumtakssjóðanna en þeir fjárfesta í vaxtarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og búa yfir miklum möguleikum til vaxtar og útrásar. Félagið hefur markvisst verið að fjárfesta í erlendum tengslum og unnið með félögunum í eignasafni sínu að því að efla tengsl þeirra við erlenda fjárfestingasjóði auk þess að aðstoða þau við erlent markaðsstarf.

Paula hefur yfirgripsmikla þekkingu á frumkvöðlafyrirtækjum og hefur unnið með slíkum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Ísrael og Íslandi. Hún hefur mikla reynslu af viðskiptaþróun, markaðsfærslu og almannatengslum sem hefur nýst fyrirtækjunum afar vel. Hún fluttist til Íslands 2011 og hefur unnið með mörgun íslenskum sprotafyrirtækjum í hinum ýmsu hlutverkum s.s. stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri. Hún hefur einnig verið að ráðleggja frumkvöðlum í hinum ýmsu stuðningsverkefnum hér á landi.

“Ég er hæstánægð með að ganga til liðs við Frumtak Ventures og hlakka til að vinna með þeim frábæru fyrirtækjum sem eru í eignasafninu og hjálpa þeim að efla alþjóðlegt tengslanet sitt og nýta erlend markaðstækifæri” sagði Paula Gould.

“Við erum afskaplega ánægð að hafa fengið Paulu til liðs við okkur” sagði Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtak Ventures. “Reynsla hennar í tengsla og markaðsstarfi erlendis ásamt brennandi áhuga hennar á sprotafyrirtækjum fellur vel að hugmyndum okkar um hvernig við getum best aukið áhuga á sjóðunum og fyrirtækjunum í eignasafni þeirra erlendis.”