Frétt fengin af síðu Viðskiptablaðsins.

Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, mun á næstu árum fjárfesta fyrir rúma 2,2 milljarða króna í þremur sérhæfðum fjárfestingarsjóðum sem hafa það markmið að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi. Sjóðirnir eru Eyrir Vöxtur, Frumtak 3 og Crowberry II. Fjárfest verður fyrir 810 milljónir króna í bæði Frumtaki 3 og Crowberry II og fyrir 620 milljónir króna í Eyri Vexti. Þetta kemur fram í fréttatilkhynningu. 

Kría auglýsti fyrr í haust eftir umsóknum frá sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svonefndum vísisjóðum. Þrír vísisjóðir, sem allir uppfylltu sett skilyrði, sóttu um fjárfestingu. Allir eru þeir sagðir eiga það sameiginlegt að fjárfesta snemma í vaxtarferli sprotafyrirtækja sem búa yfir miklum vaxtarmöguleikum á erlendum mörkuðum. Vísisjóðirnir þrír eiga það jafnframt sameiginlegt að vera stofnaðir og fjármagnaðir á árinu sem nú er að líða.

Fjármagnið sem Kría leggur til rennur til fjárfestinga í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum með starfsemi á Íslandi eða sem eiga rætur að rekja til íslenskra hugmynda.

„Mikil gróska hefur verið í nýsköpunarumhverfinu hér á landi að undanförnu og hafa fjárfestar tekið við sér eftir að tilkynnt var um stofnun Kríu í lok árs 2019,“ segir í tilkynningu Kríu.

Eyrir Vöxtur er sex milljarðar króna að stærð og í umsýslu Eyrir Venture Management. Sjóðurinn mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem komin eru með vöru eða þjónustu, byrjuð að afla tekna og eru með góða vaxtamöguleika.

Frumtak 3 er sjö milljarðar króna að stærð, í umsýslu Frumtak Venture, og mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum.

Crowberry II er 11,5 milljarðar króna að stærð, í umsýslu Crowberry Capital, og mun fjárfesta í íslenskum og norrænum tækni-sprotafyrirtækjum. 

Eyrir Vöxtur og Frumtak 3 hafa nú lokið fyrir fjármögnun en Crowberry II tekur við fjárfestingarloforðum fram á mitt ár 2022. Áætlaður líftími sjóðanna þriggja er tíu ár. 

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, formaður stjórnar Kríu:

„Fjárfesting Kríu í sjóðunum þremur mun efla þá enn frekar og styðja við uppbyggingu á þekkingu og reynslu í nýsköpunarfjárfestingum, sem er lykilatriði í uppbyggingu á hugvitsdrifnum útflutningi. Í samræmi við nýja nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, sem stjórnvöld kynntu haustið 2019, beinir Kría fjármunum í nýsköpun í gegnum sérhæfða aðila, og hvetur einkafjármagn til að auka þátttöku sína í vísisjóðum. Á árinu var mikil gróska og áhugi á að fá Kríu að borðinu, sem gefur góða vísbendingu um framtíð nýsköpunar á Íslandi þar sem Kría mun spila lykilhlutverk í áframhaldandi vexti og þróun umhverfisins.“