Arctic Trucks hefur aukið hlutafé fyrirtækisins um 470 milljónir króna sem verða notaðar til frekari uppbyggingar erlendis. Það eru Frumtak Ventures ásamt núverandi hluthöfum sem standa að aukningunni. Samhliða hlutafjáraukningunni bætast reynsluboltar við stjórnendateymi félagsins; Arctic Trucks er þekkingarfyrirtæki sem byggir á íslensku hugviti og vinnur að því að sérsníða og þróa lausnir fyrir ökutæki sem bæta aksturseiginleika og víkka notkunarsvið þeirra. Þetta er gert í samstarfi við bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Nissan, Isuzu, Mercedes-Benz og fleiri, og hefur fyrirtækið á undanförnum árum varið hundruðum milljóna króna í þróun margvíslegra lausna fyrir bæði einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Arctic Trucks er í dag leiðandi aðili á sínu sviði í heiminum og hafa lausnir fyrirtækisins til dæmis skapað því mikla sérstöðu á Suðurskautslandinu og opnað nýja möguleika í samgöngum á þessari köldustu, þurrustu og vindasömustu heimsálfu veraldar. Arctic Trucks hefur einnig nýtt sérþekkingu sína til að byggja upp ferðaþjónustu á Suðurskautinu og á Íslandi undir merkjum Arctic Trucks Experience. Þar gefst ferðamönnum kostur á að leigja Arctic Trucks bíla í ferðum sem sniðnar eru að þörfum hvers og eins. Arctic Trucks rekur starfsstöðvar á Íslandi, í Noregi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en hefur auk þess gert sérleyfissamninga við valda aðila í Rússlandi, Bretlandi, Finnlandi, Póllandi, Hollandi og Suður-Afríku um framleiðslu, sölu og þjónustu við bifreiðar Arctic Trucks. Í dag starfa á annað hundrað manns undir merkjum fyrirtækisins víða um heim.

Viðbótin við stjórnendateymið eru þeir Clive Scrivener, sem tekur við stjórnarformennsku, og Patrik von Sydow, sem verður forstjóri Arctic Trucks International. Clive hefur mikla alþjóðlega reynslu af stjórnunarstörfum í ýmsum atvinnugreinum, þar á meðal í bílaiðnaði. Hann gegndi starfi forstjóra Prodrive sem er þekkt á sviði mótorsports og sérútbúinna bíla. Hann er einnig stjórnarformaður Oxbotica, sprotafyrirtækis á vegum Oxford University sem vinnur að þróun sjálfkeyrandi bíla. Patrik hefur mikla og víðtæka reynslu sem stjórnandi hjá vel þekktum alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við General Motors, SAAB, Sunseeker, Danish Yachts, Sealine, Numarine og ASSA ABLOY.

Frekari upplýsingar er að finna á www.arctictrucks.com