Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop hefur samið við alþjóðlega fyrirtækið Zodiak Kids um framleiðslu á sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á hinum íslenska Tulipop ævintýraheimi og persónum hans. 

Framleiddir verða 52 þættir í seríu af  11 mínútna þáttum og er áætlaður framleiðslukostnaður um 700 milljónir króna. Zodiak Kids mun framleiða seríuna í samstarfi við Tulipop auk þess að sjá um alþjóðlega sölu og dreifingu.

„Vinnan við þróun þessarar sjónvarpsseríu hófst fyrir 18 mánuðum síðan en þá fengum til liðs við okkur sterkan hóp reynslubolta í teiknimyndabransanum til að þróa handrit og búa til stuttmynd sem sýnir útlitið sem við viljum hafa á seríunni. Við kynntum verkefnið á Cartoon Forum í Toulouse í Frakklandi í september í fyrra og á MIP Junior í Cannes í október á síðasta ári þar sem það fékk frábærar viðtökur og í kjölfarið hófust viðræður við aðila sem lýstu yfir áhuga á samstarfi,“ er haft eftir Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Tulipop, í tilkynningu. 

Helga segir að stefnt sé að sölu á sjónvarpsseríunni um allan heim og á mörgum tungumálum. 

Samhliða þróun þessar stóru sjónvarpsseríu hefur Tulipop framleitt tíu stutta 2,5 mínútna teiknimyndaþætti sem fóru nýverið í sýningar á RÚV.