Frétt tekin af vef Fréttablaðsins

Frumtak, samlagssjóður í eigu NSA, lífeyrissjóða og banka, hefur selt 11,33 prósenta hlut sjóðsins í Controlant, íslensku upplýsingatæknifyrirtæki sem þróað hefur hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Fjárfestahópur núverandi hluthafa í Controlant, leiddur af Investco ehf., keypti hlutinn fyrir nærri tvo milljarða króna, en hópurinn átti hæsta tilboðið í söluferli sem fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafði umsjón með.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en alls bárust á annan tug tilboða í eignarhlutinn, að hluta eða í heild, frá innlendum og erlendum aðilum. Miðað við söluverðið á hlutnum er Controlant því í dag metið á liðlega 17 milljarða króna.

Greint var frá söluferlinu í Markaðinum fyrr í þessum mánuði en ástæða sölunnar er að sjóðurinn Frumtak I, sem fjárfesti fyrst í Controlant árið 2011, er að ljúka líftíma sínum. Frumtak verður hins vegar enn á meðal stærstu hluthafa fyrirtækisins með um 13 prósenta hlut í gegnum sjóðinn Frumtak II. 

Í tilkynningunni segir að Controlant verði í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19. Viðskiptavinir félagsins stefna að því að dreifa bóluefni fyrir lok árs og á fyrri hluta næsta árs, en Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu.

„Við hjá Frumtaki höfum verið afskaplega stolt af því að fylgja félaginu í gegnum ótrúlegan vöxt á undanförnum árum. Stofnendur, stjórnendur og starfsmenn Controlant hafa unnið þrekvirki og félagið er leiðandi á sínu sviði í heiminum,“ er haft eftir Svönu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Frumtaks. 

Lýður Þór Þorgeirsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka, segir að það hafi verið gaman að starfa með Controlant og hluthöfum þess síðustu misseri og fylgjast með sókn félagsins erlendis.  

„Þá er gott að sjá árangur vel heppnaðra sprotafjárfestinga innlendra stofnanafjárfesta og þann meðbyr sem Controlant hefur hjá fjárfestum, jafnt innlendum sem erlendum. Við hlökkum til að styðja áfram við félagið á komandi árum og fylgjast með því spennandi starfi sem þar er unnið,“ segir Lýður.