Ásthildur Otharsdóttir hefur tekið við stjórnarformennsku hjá Kaptio. Hún tekur við af Eggerti Claessen sem hefur gegnt formennsku hjá félaginu síðan 2016. Aðrir stjórnarmenn eru stofnendur Kaptio þeir Arnar Laufdal Ólafsson og Ragnar Fjölnisson auk Arnar Viðars Skúlasonar, fjárfestingastjóra hjá Nýsköpunarsjóði og Smára R. Þorvaldssonar, ráðgjafa. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Ásthildur bættist nýverið í hóp eiganda Frumtaks Ventures en var áður stjórnarformaður félagsins og vísisjóðsins Frumtaks II sem er jafnframt stærsti hluthafi Kaptio. Hún er stjórnarformaður hjá Controlant og hefur setið í stjórnum ýmissa félaga, meðal annars Marel undanfarin 11 ár og þar af síðustu átta árin sem stjórnarformaður. Þar tók hún þátt í örum vexti og uppbyggingu félagsins á alþjóðavísu og skráningu þess á Euronext í Amsterdam. Einnig sat Ásthildur í stjórn Icelandair Group í 7 ár. Áður leiddi hún viðskiptaþróun hjá Össuri, þar með talið yfirtökur og fjárstýringu og tók þátt í skráningu félagsins á NASDAQ í Kaupmannahöfn. 

„Ég hlakka til að takast á við spennandi tækifæri og áskoranir með frábæru teymi hjá Kaptio. Fyrirtækið hefur byggt upp mjög áhugaverðar lausnir fyrir framsýn fyrirtæki í ferðaþjónustu og á sterkan viðskiptavinahóp. Félagið er auk þess með metnaðarfullar áætlanir um að sækja fram í þessum geira. Ferðaþjónustan er að taka við sér og ég sé mikil tækifæri í því að byggja upp sterkt alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem er leiðandi í þeirri stafrænu umbreytingu sem á sér nú stað í ferðaþjónustunni”, segir Ásthildur Otharsdóttir, nýr stjórnarformaður Kaptio, í tilkynningunni. 

„Reynsla og þekking Ásthildar af uppbyggingu og rekstri alþjóðlegra vaxtafyrirtækja eins og Marel og Össurar er gríðarlega verðmæt fyrir okkur. Félagið er í undirbúningi fyrir næsta vaxtarfasa eftir að markaðir opnast og er því mikill fengur að fá Ásthildi til að leiða stjórn félagsins á þessum tímapunkti”, segir Viðar Svansson, framkvæmdastjóri Kaptio, í tilkynningunni.

Kaptio er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki á sviði bókunar- og viðskiptatengslahugbúnaðar fyrir ferðaþjónustu. Félagið sem var stofnað árið 2012, er með höfuðstöðvar í Reykjavík auk þess að vera meðal annars með starfsemi í Bretlandi og Kanada en viðskiptavinir félagsins eru alþjóðleg fyrirtæki í ferðaþjónustu. Síðastliðin ár hefur Kaptio verið í hröðum vexti og hjá félaginu starfa um 50 manns. Helstu hluthafar Kaptio eru Frumtak og Nýsköpunarsjóður auk stofnenda félagsins.